TILFINNINGASMIT: SENDIR ÞÚ ÓSKÝR SKILABOÐ?

Það er ekki auðvelt að skilja sjálfa(n) sig og enn erfiðara að skilja aðra. Til þess að átta sig á því af hverju það er svo flókið að skilja sig og aðra getur verið gott að greina á milli eftirfarandi atriða (Gosling, 2009).

Í fyrsta lagi búum við yfir eiginleikum sem við vitum af og aðrir taka auðveldlega eftir. Það að vera hjálpsamur, íhaldssamur, stjórnsamur eða opinn er eitthvað sem dylst yfirleitt ekki. Hvorki okkur né öðrum.

Í öðru lagi búum við yfir eiginleikum sem við gerum okkur ekki grein fyrir og aðrir eiga erfitt með að greina. Þetta eru eiginleika á borð við að vera næmur fyrir hrósi eða hafa mikla þörf fyrir ástúð. Slíkir mannlegir hvatar hafa oft verið fyrirlitnir í ýmsum menningarheimum og jafnvel forboðnir í trúarlegum tilgangi. Slíkt getur orðið til þess að einstaklingurinn geri sitt ítrasta til að afneita slíkum eiginleikum í sínu eigin fari.

Í þriðja lagi búum við yfir eiginleikum sem við gerum okkur grein fyrir en viljum ef til vill gera sem minnst úr, eins og feimni eða vanlíðan í margmenni og/eða við ákveðnar aðstæður. Þannig verður sá eiginleiki öðrum hulinn og jafnvel þeir nánustu gera sér ekki grein fyrir kvíða og vanlíðan sem viðkomandi einstaklingur ber í brjósti.

Að lokum búum við yfir eiginleikum sem eru öðrum ljósir en einstaklingurinn er sjálfur ekki eins næmur á eins og til dæmis að hafa mikið aðdráttarafl, hafa sterka varnarhætti eða hafa getu og gáfur sem aðrir öfunda viðkomandi af en sá hinn sami gerir sér ekki grein fyrir að búa yfir.

Til þess að átta sig betur á þessu er gott að hafa í huga að uppeldi og umhverfi getur ýkt viðbrögð okkar mjög mikið. Þannig getur einstaklingur sem hefur gengið í gegnum mikla höfnun á unga aldri t.d. eins og gerist gjarnan við skilnað foreldra, flutninga á milli staða eða dauðsföll orðið mjög viðkvæmur fyrir höfnun. Ef upp koma aðstæður síðar í lífi viðkomandi geta ofangreindir þættir snögglega orðið mjög ýktir í fari hans/hennar.

Einnig eru margir af ofangreindum þáttum félagslega smitandi. Kvíðinn einstaklingur getur haft mjög kvíðvænleg áhrif á sitt nánasta umhverfi og þannig er kvíði snögglega orðinn viðvarandi ástand t.d. innan fjölskyldunnar, á milli samstarfsmanna á vinnustað eða í skólastofunni.

Hvers kyns áföll, lítil jafnt sem stór, eða kvíðvænleg verkefni geta síðan aukið enn frekar á tilfinningasúpuna og sett allt á yfirsnúning. Í stað þess að takast á við orsakir samskiptavandans einblína allir á útkomuna og enginn gerir sér grein fyrir því hvernig kvíðinn læddist inn í samskiptin til að byrja með og hvers vegna hann varð að svo ríkjandi þætti í líðan allra. Kvíðinn er bara kominn til að vera og allir eru komnir á kvíðafyllerí. Eftir því sem kvíðinn og stressið eykst verður erfiðara að greina skóginn fyrir trjánum og einstaklingar eiga erfiðara með að sjá mögulegar lausnir á hvers kyns vandamálum sem liggja fyrir í samskiptunum.

Það sem skiptir máli er að skilja að tjáning okkar er í grunninn þrískipt. Gróflega má áætla að 60% af samskiptum okkar snúist um að skilja líðan hvors annars. 30% er hegðun okkar og aðeins 10% er hvað við raunverulega segjum. Þannig þurfum við að skilja að líðan eins aðila er öðrum fullkomlega ljós, án þess að um það séu höfð nokkur orð, eða að neitt komi fram sem gefur það í skyn annað en samveran. Það er kallað tilfinningasmit þegar slík líðan færist yfir frá einum aðila til annars.

Því verður tal okkar og hegðun oft staðfesting á einhverjum eiginleikum okkar sem eru öðrum ljósir en ekki okkur sjálfum. Við sjálf erum ekki að skilgreina og skoða okkar eigin líðan. Okkur finnst óþægilegt að vera kvíðin og höfum tilhneigingu til að deyfa það með hegðun sem getur orðið að þráhyggju, leitt til einangrun okkar eða að við sýnum umhverfinu uppreisn. Við viljum frekar deyfa kvíða með lyfjum, áfengi, eiturlyfjum, meðvirknihegðun eða hvers kyns þráhyggjuhegðun í stað þess að takast á við þau áreiti sem valda okkur kvíða. Þannig verður líðan okkar og eiginleikar oft öðrum sýnilegir þótt við höldum sjálf nístingsfast í afneitunina og reynum að þvinga allt í eitthvað óskilgreint far eða lífsviðhorf sem við viljum halda í.

Heimildir:

Gosling, Sam. (2009). Mixed Signals. Psychology Today. Október, bls. 64 -71.

Gosling, Sam. (2009). Snoop: What Your Stuff Says About You.