Starfsendurhæfing: Hvað geta rannsóknir í íþróttasálfræði kennt okkur?

Starfsendurhæfing gengur almennt út á að hjálpa þeim sem missa vinnu eða eiga erfitt með að fá vinnu sökum sjúkdóma, slysa, örorku eða félagslegra aðstæðna að komast aftur út á vinnumarkaðinn og taka virkan þátt í samfélaginu. Endurhæfingin getur falist í námi eða starfsþjálfun og öllum úrræðum er beitt til að auka lífsgæði og endurnýja starfsþrek þeirra.

Þegar afreksíþróttafólk meiðist illa í slysum tekur endurhæfingarferli við og íþróttafólkið getur þurft að hverfa frá þjálfun á sinni íþrótt til lengri tíma. Íþróttasálfræðingurinn Urban Johnson frá Svíþjóð hefur rannsakað hvaða þættir geta haft neikvæð áhrif á slíkar endurhæfingar. Hann greindi frá niðurstöðum sínum á alþjóðlegri ráðstefnu um íþróttasálfræði sem haldin var við Háskólann í Reykjavík þann 30. júní 2010.

Á meðal þeirra atriða sem hafa neikvæð áhrif á endurhæfinguna eru lágt sjálfsmat, þrýstingur frá samfélaginu, skortur á hvatningu, ótti um það sem er framundan, einbeitingarskortur, ekki er hlustað á þjálfara og endurhæfingaraðila, hroki, áhrif vegna erfiðra breytinga á lífsstíl, áfengismisnotkun eða önnur fíknhegðun. Ekki má gleyma þunglyndi, óvissu um eðli endurhæfingarinnar, einangrun frá félögum og afneitun á aðstæðum eins og þær eru. Sérstaklega var þó tekið fram að ef félagslegur stuðningur er að skornum skammti getur það hamlað framförum í endurhæfingunni.

Það getur vel hugsast að endurhæfing afreksíþróttafólks eigi margt sameiginlegt með starfsendurhæfingu. Ráðgjafar á sviði starfsendurhæfingar eru kannski að kljást við þessi sömu atriði í störfum sínum. Ef svo er, þá er ekki öll von úti, því Urban Johnson mælti líka með nokkrum meðferðaleiðum við endurhæfinguna.

• Endurmeta markmiðin í lífinu. • Forðast að persónugerva aðstæður. o Þótt ég missi starf er ég ekki endilega liðleskja eða lélegur einstaklingur. • Halda uppi virku félagslegu sambandi við fólk. • Virkja betur samskiptahæfni. • Afla sér upplýsinga um stöðu sína og endurhæfingu. • Skoða ný tækifæri og áskoranir. • Vera opinn fyrir endurhæfingunni. • Sækja í félagslegan stuðning og alla mögulega aðstoð. • Halda sér að endurhæfingunni. Ekki skrópa eða svíkjast undan.
• Takast meðvitað á við breytingarnar sem fylgja því að tilheyra ekki lengur starfinu sem persónuímyndin var skilgreind út frá. • Stimpla sig ekki sem atvinnulausa(n) til framtíðar og forðast að skilgreina sig út frá atvinnuleysinu eða telja sig vonlausa(n). • Skoða ný áhugamál eða endurvekja gömul áhugamál sem hafa mögulega setið á hakanum. • Leita til sjálfshjálparhópa ef þeir eru til staðar.

Þeir sem lenda í stóru áfalli og glíma við áfallaröskun geta sömuleiðis tileinkað sér þennan lista til að draga úr hættunni á því að leiðast út í neikvæða hegðun í aðlögunarferlinu.

Gagnvart starfsendurhæfingu má bæta því við að hópmeðferðir geta verið afar árangursríkar. Margir finna fyrir gífurlegum stuðningi við það að hitta aðra sem eru að ganga í gegnum svipaðar aðstæður, og andrúmsloftið verður skilningsríkt í hvert sinn sem hópurinn kemur saman. Í hópmeðferðum er hægt að taka markvisst fyrir þau atriði sem talinn eru hér að ofan og vinna gegn neikvæðum áhrifum þeirra, t.d. með þjálfun í að takast á við afneitun eða reiðstjórnun. Það er ódýr valkostur og á margan hátt hnitmiðaðri, þar sem dagskráin er skipulagðari og námskeiðaformið er notað að hluta til þess að skýra hluti og upplýsa viðkomandi aðila um þau atriði sem skipta miklu máli í starfsendurhæfingunni eins og t.d. reiðistjórnun, kvíðastjórnun, markmiðasetning, sjálfstraust og félagsleg samskipti.