SÓLSKINIÐ GERIR OKKUR KÆRULAUS, EN BIRTUSKORTUR EYKUR NEYSLUÞÖRFINA

Það er full ástæða til að fylgjast vel með veðurspánni, því veðurfarið hefur áhrif á líðan okkar og þar með hvernig við hegðum okkur. Sólskinið gerir okkur viðmótsþýðari og viljugari til að þóknast öðrum. Á sólríkum dögum, hvort sem kalt sé í veðri eða ekki, erum við líklegri til að svara spurningum frá spyrlum og erum örlátari á þjórfé. Fólk er jafnvel rausnarlegra í gluggalausum hótelherbergjum ef þeim er sagt að

úti sé sól heldur en ef þeim er sagt að úti sé skýjað veður. Fallegir dagar gera okkur skapbetri, sem kallar fram hjálpsemi og örlæti. Þegar við erum í góðu skapi, viljum við halda því tempói.

Veðrið hefur meira að segja áhrif á háskólaumsóknir og það hvaða umsækjendur eru samþykktir inn. Umsækjendur sem eru hæfir í námið eru líklegri til að vera samþykktir á skýjuðum dögum, en umsækjendur sem eru félagslega virkir eru frekar samþykktir á sólríkum dögum. Skýjaðir dagar kalla fram hugmyndina um að halda sér innan dyra við að lesa eða að læra. Rannsóknir hafa sýnt að ef spáð er skýjuðu veðri hvetur það fólk til að hugsa um lærdóm.

Sólskinið hefur líka áhrif á hlutabréfamarkaðina, en þeir eru þrisvar sinnum líklegri til að fara upp á við í sólskini. Fjárfestar eru glaðari á sólríkum dögum og tengja það ranglega við möguleika á góðu gengi á hlutabréfum. Þetta hefur verið kallað geislabaugsáhrif og á við þegar einstaklingar fyllast almennri bjartsýni. Það er spurning hvort hér sé komin skýring á íslenska fjármálaæðinu.

Rannsóknir hafa sýnt að meira er keypt af lottómiðum á þungskýjuðum dögum. Ástæðan er ekki sú að kaupendurnir séu að reyna að koma sér í betra skap. Slæmt veðurfar dregur úr sjálfsstjórn okkar og verður til þess að við föllum frekar fyrir freistingum.

Við reynum að bæta okkur upp birtuskortinn á sólarlitlum dögum með aukinni neyslu, hvort sem er á áfengi, kaffi, tóbaki eða súkkulaði.